Tilraunaeldamennska

Frystihólfið í ískápnum mínum fyllist alltaf öðruhvoru af lambakjöti í ýmsum myndum. Það er alltaf mest af hakki en líka eitthvað smá af gúllasi og öðru. Hingað til höfum við skötuhjú annaðhvort steikt gúllasið á pönnu með súrsætri sósu eða búið til arabískan lambapottrétt. Í dag er ég hinsvegar að búa til indverskan pottrétt með fullt af apríkósum, möndlum, kanil, engifer og fleiru sem er oftast notað í bakstur. Lyktin er mjög góð og svo kemur bara í ljós eftir klukkutíma hvort þetta sé gott. Næst þegar ég elda gúllas er ég samt að spá í að gera eitthvað klassískara með sósu og kartöflumús. Fyrst þarf ég bara að kaupa mér kartöflustappara.

Nanna tilraunakokkur

 

 


Bílasali

Þá er ég búin að selja yndislegu litlu toyotuna mína. Það var pínu söknuður þegar ég var að tæma hana en ég verð fljót að komast yfir það enda var ég að losa mig við tifandi tímasprengju og fékk fullt af pening í staðinn. Ég fékk meira fyrir bílinn þó hann væri bilaður (er að taka upp á því að fara bara í gang þegar honum hentar) en sá síðasti sem hafði áhuga var til í að borga fyrir hann. Það er ansi góður díll.  Svo verð ég að sjálfsögðu að eyða einhverju af þessum pening. Græði ekkert á að láta hann bara sitja inn á bankabók og rýrna í kreppunniTounge.

 Ég var að fá fyrstu 10 una mína í háskóla og fannst ég eiginlega ekki eiga hana skilið. Væri kannski sáttari ef ég skildi kommentin sem kennarinn skrifaði við verkefnið. En ég er allavegana að vinna í að fá góða einkunn í húmorsáfanganum sem ég bjóst ekki við svo ég er sátt.

 Nanna milli

 


Læra læra læra

Þá er fyrsta fríhelgin mín síðan skólinn byrjaði runnin upp. Það sem gerir hana merkilegri er að þetta átti ekkert að vera fríhelgi, ég ætti núna að vera að ganga leggjabrjót með tjald, dýnu, svefnpoka og mat á bakinu en við beiluðum og ég er bara nokkuð sátt við það. Í staðin ætla ég að læra slatta, ganga frá þvotti og taka til. Allt þetta hefur setið svolítið á hakanum hingað til.

 Ég skellti mér á Októberfest bingóið svona til að lyfta mér upp í kreppunni. Vinningarnir voru frekar kreppulegir, áritaðar myndir af kennurum skólans, frítt útprent á staðfestingu á skólavist og fleira í þeim dúr. Ég, sem var bitur yfir að vinna aldrei neitt í bingó frá fyrstu tölu, fékk hinsvegar ágætis vinning fyrir mitt bingó - árskort í háskólaþrekið. Svo nú hef ég enga afsökun lengur til að skella mér ekki í þrek. 

 Og smá pirringur svona í lok færslu. Í gær ætlaði ég að skella mér í kringluna að eyða peningum. Þar sem yndislegi litli bíllinn minn fékk kvef í snjónum um daginn ætlaði ég á fína bílnum hans Jakobs (ef að strætó væru ekki með vesen ætti ég frítt strætókort og hefði þá sennilega tekið strætó). En nei, einn af hinum eigingjörnu óþolandi íbúum stúdentagarðana (þeir eru sko mjög margir) hafði ákveðið að leggja fáránlega kolólöglega sem þýddi að það var frekar erfitt fyrir mig að komast út úr bílastæðinu mínu. Ég hefði getað það á litlu sætu lipru toyotunni minni en ég lagði ekki alveg í það á stirða bílnum hans Jakobs svo ég gerðist kerling og lét hann bakka út úr stæðinu. Bæði af því ég treysti mér ekki til þess á stirðbusalegum bíl sem ég hef voða lítið keyrt og af því ég treysti mér ekki til að verða ekki pirruð og bakka bara vísvitandi beint á helvxx fíflið. En ég komst í Kringluna og gat eytt fullt af pening sæl og glöð. 

 

Kv. Nanna geðvonda 


Kreppumatur

Í kvöld borðuðum við skötuhjúin mat sem er einstaklega ódýr og þar af leiðandi kreppuvænn. Uppskriftin er svona

Pasta soðið eftir leiðbeiningum á pakka.

Vatninu hellt af pastanu og því skipt jafnt í tvær skálar.

Svo setur maður matarolíu og krydd eftir smekk út á pastað.

Til að gera þetta matarmeira má bæta við skinku, pepperoni eða túnfisk.

Túnfisk útgáfan varð fyrir valinu í dag. Heildarkostanaður þessa kvöldverðar hefur sennilega verið innan við 200 krónur. Ef við hefðum fengið okkur grænmeti með hefðum við náð að borða úr öllum flokkunum. Þetta er semsagt hollt líka.

Nanna níska 


Bleikur mánuður

Í tilefni þess að október er tileinkaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini og einkennislitur þeirrar baráttu er bleikur skellti ég þessum annars undarlega haus á síðuna mína.

 Ég er þegar búin að kaupa mér bleikan topp (as in sódavatn) til styrktar átakinu og núna er bara að splæsa á sig bleiku slaufunni. Mér finnst þetta átak vera svolítið nærri mér þar sem móðuramma mín fékk brjóstakrabba og ein systir mömmu er nýlega búin í lyfjameðferð vegna sama meins. Ég vil því hvetja alla til að splæsa á sig bleiku nælunni og bleikum topp.

 

Nanna bleika 


Söng randaflugan

Ég er að horfa á Singing Bee (sem mér finnst viðbjóðslegt nafn á íslenskum þætti) og er að komast að því að ég gæti rúllað þessu upp... svona oftast allavegana.

Ætli skátafélagið Ægisbúar verði aldrei beðnir um að taka þátt. 


Ung i norden

Síðasta fimmtudag vaknaði ég eldsnemma, skellti mér í skátaskyrtuna og brunaði út á flugvöll. Þar hittumst við 10 sem vorum á leiðinni til danmerkur með fulla tösku af kynningarbæklingum frá Bláa lóninu, gitarlele og kjólföt (reyndar bara strákarnir). Eftir mjög rólega flugferð komum við til Köben þar sem við fundum alveg hjálparlaust lest sem fór á aðal lestarstöðina í miðbænum. Þar komum við töskunum okkar í geymslu og héldum niðrá Strikið með kreditkortið að vopni.

Eftir stutta en góða verslunarferð tók alvaran við og við fórum á Hólmin, skátamiðstöð nánst við hliðina á Kristjaníu. Þar komumst við að því að öll ráðstefnan mundi fara fram á dönsku. Við og finnarnir vorum ákaflega ánægð með þessar fréttir. En þegar til kom skildum við alveg slatta, það fór bara eftir því hver talaði og hversu hratt. Við komumst líka að því að dönum finnst ekkert tiltökumál þó kokkurinn á staðnum fari ekki í sturtu og skipti ekki um föt yfir langa helgi, fara snemma að sofa og eru ónýtir ef þeir fá bara 7 tíma svefn, taka þemapartýin sín mjög alvarlega (það var ástæðan fyrir kjólfötunum) og kalla beikon og lauk kvöldmat. 

Ég gæti gert þetta mun lengra en ég ætla bara að koma restinni frá mér í stykkorðum.

  • Fór í göngutúr um Kristjaníu þar sem við fengum okkur köku (ekki brownie samt)
  • Var rekin frá Amalie borg af lífverði hennar hátignar (það má víst ekki sitja á torginu)
  • Fór í Tivoli á síðasta opnunardegi en þorði bara í eitt tæki (enda var subbulega löng röð í þau öll)
  • Fór að drekka kaffi þar sem það var það eina sem var í boði með morgunmatnum (var reyndar te líka en það var klórbragð af því)
  • Það er ógeðslega mikið af dúfum í Köben (brrr)

Daginn áður en ég fór var ég svo heppin að það var keyrt aftan á mig á ljósum. Það sá ekkert á bílnum en ég ákvað að skella mér upp á slysó þar sem mér var tilkynnt að ég væri tognuð í baki. Ég get hinsvegar mælt með því að sofa í tjaldi, gera mennskan pýramída, bera þunga tösku (sem læknirinn sagði reyndar að ég mætti ekki) og fara í leik sem gengur út á að detta því ég fann ekkert fyrir bakinu eftir það.

 

Nanna ferðalangur


Furðulegt nám

Fólki finnst námið mitt stundum svolítið undarlegt. Þessa önnina er ég þó í áföngum sem heita nokkuð eðlilegum nöfnum. Húmor; Hátíðir, leikir og skemmtanir og Inngangur að safnafræði eru þeir áfangar sem ég er í. Ágætis blanda af praktík og skemmtilegri ópraktík. Húmors áfangann kennir gestakennari frá USA sem er mjög virtur fræðimaður (innan þjóðfræðinnar allavegana). Það sem stendur upp úr eftir tímann í dag er að ég lærði voða fínt fræðilegt orð - scatological - kúkabrandarar.

Og svo er fólk þarna úti sem lærir línulega algebru af frjálsum vilja.


Alvara lífsins tekin við

Þá er skólinn byrjaður og maður kemst loksins í smá rútínu aftur. Rútínan er reyndar hálfgert letilíf þar sem ég byrja aldrei í skólanum fyrr en klukkan 10 á morgnana. Morgnarnir eru hinsvegar eini tíminn sem ég fæ að vera löt.  Ég þarf að skrifa stórar feitar ritgerðir í öllum 3 áföngunum sem ég er í fyrir utan öll hin verkefnin og lesturinn. Svo þarf ég að skrifa einar 20 bls fyrir ofurskátanámskeiðið sem ég er á. Fyrir utan það er ég að fara í helgarferð (á skátaráðstefnu) til DK, fer í nokkrar útilegur, í Laufskálarétt, 20 km gönguferð, er í stjórn nemendafélagsins míns og vinn 1 kvöld í viku. Það er eins gott að hafa nóg að gera.

 

Nanna upptekna

Ps. Það gekk mjög vel að sjóða kartöflur og kjötfarsbollur. Þetta verður endurtekið við tækifæri


Soðnar kartöflur

Það eru ca 6 mánuðir síðan ég fór að búa. Á þeim tíma hef ég verið mjög dugleg að elda (og Jakob líka). Við höfum eldað mjög fjölbreyttan mat en mest grænmeti og pasta. Í síðustu viku suðum við okkur grænmetissúpu og notuðum í hana hvítkál. Við gátum hinsvegar ekki notað heilan kálhaus svo nú eigum við vænan slatta af hvítkáli sem liggur undir skemmdum. Því höfum við ákveðið að fara nýjar leiðir í eldamennsku. Í kvöld ætlum við að sjóða kjötfarsbollur (einnig þekktar sem lillabláar bollur) með hvítkáli og kartöflum. Þetta verður bæði í fyrsta sinn sem við kaupum kjöt til að hafa í kvöldmatinn (álegg ofan á pítsur er ekki talið með) og í fyrsta sinn á þessu hálfa ári sem við sjóðum kartöflur. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta endar.

 Nanna tilraunakokkur

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hógvær bæði og yndisleg

Höfundur

Nanna Guðmundsdóttir
Nanna Guðmundsdóttir
Litla systir, stóra frænka, dóttir, vinkona, þjóðfræðinemi, ofurskáti og metnaðarfullur en húðlatur bloggari.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...ng_hood_726
  • jólamynd
  • jólamynd
  • Hvernig rúsínur verða til
  • Hvernig rúsínur verða til

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 718

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband