Færsluflokkur: Bloggar

Stjörnuspá

Stjörnuspáin mín hefur miklar áhyggjur af mér þessa dagana. 6. mars sagði hún: Þú þráir breytingar og finnur að það er kominn leiði í þig. Íhugaðu hvað þú vilt helst gera og taktu stefnuna á það. 7. mars sagði hún: Þú þarft að lyfta þér upp eftir mikla vinnutörn og þú veist að þú átt það skilið. 8. mars sagði hún svo: Hvað sem þarf til að létta þér lund skaltu gera það. Þú þarft smá gleði í líf þitt.  Ég hlýði að sjálfsögðu stjörnuspánni og skellti mér í bíó með Jóhönnu á laugardaginn. Svo fórum við í mjög ómenningarlegan leiðangur nður í bæ. Við fundum engan stað sem okkur langaði að setjast niður á svo við enduðum á Red chili. Það var pínu spes en mjög gaman. 

 En talandi um bíó. Afhverju fer fólk með börn á íslenskar myndir. Við fórum á Brúðguman og það var fullt af börnum í bíó, þar af nokkur örugglega ekki eldri en 7 ára. Er fólk ekki búið að fatta að íslenskir kvikmyndagerðarmenn eru örgustu perrar. Þeir grípa hvert tækifæri til að láta Hilmi Snæ hlaupa um nakinn. Kaninn mundi örugglega setja bannað innan 18 miða á allar íslenskar myndir... en þeir eru líka pínu fanatískir. 

 

Nanna menningarviti 

 

 

 


Hrærigrautur

Það er frí í skólanum í þessari viku. Fríið er ýmist kallað lesvika eða verkefnavika sem gefur smá vísbendingu um til hvers það er hugsað. Ég er ekki alveg að standa mig nógu vel í þeim efnunum. Er reyndar hálfnuð með verkefnið um ótrúlega leiðinlegu ævisöguna sem ég valdi mér og búin að lesa svolítið í skrítnu kjörbókinni sem ég þarf að gera fyrirlestur úr, hún heitir Making Sex og er ekki eins skemmtileg og nafnið gæti gefið til kynna.

Ég fór í útilegu um helgina og komst að því að ég á framtíðina fyrir mér í pókerspilun og pylsusölu.

Og að lokum eignuðust Vignir og Sanna litla stelpu þann 26. febrúar. Flestir voru á því að þetta yrði stór og dökkhærður strákur en sá spádómur klikkaði aðeins. Sú litla er þó stór og dökkhærð og ákafleg sæt eins og hún á kyn til.

 Nanna föðursystir

 


Gústi

Ég er í áfanga sem heitir efnismenning. Liður í honum er að sýna og segja frá (e. show and tell) eins og flestir ættu að kannast við úr amerískum bíómyndum. Samnemendur mínir hafa komið með margvíslega hluti, kaffibolla (í fleirtölu), myndavél, tösku, tölubox, þjóðbúningadúkku, ermahnappa og fleira. Ein kom með dúkkuna sem hafði verið mest í uppáhaldi hjá henni þegar hún var lítil. Hún sefur ennþá með dúkkuna uppí hjá sér, leyfir engum að snerta hana og tók hana með sér á heimavistina og svo heim í fríum þegar hún var í menntaskóla.

Þetta fékk mig til að hugsa um uppáhalds dúkkuna mína, hann Gústa. Ég svaf aldrei með hann upp í hjá mér (fyrir utan nokkra daga tímabil þegar ég svaf með allar dúkkurnar mínar uppí hjá mér svo ég gæti bjargað þeim þegar það mundi kvikna í), aðrir máttu alveg og mega ennþá leika sér með hann og það er mjög langt síðan ég hætti að taka hann með hvert sem ég fór. Ég er meira að segja svo harðbrjósta að ég var ekki alveg viss um hvar hann væri niðurkominn. Ég var þó nokkuð viss um að hann sæti á dótakassa heima í góðu yfirlæti með hinum dúkkunum og pældi ekki meira í því. Um daginn átti ég svo erindi niðrí geymslu og rak þar augun í grey Gústa ofan í kassa. Ég er greinilega ekki metnaðarfullur dúkkueigandi. Ég er meira að segja svo vond að hann er þar ennþá.

 Nanna dúkkuböðull


Lasarus

Vegna veðurs var útilegu helgarinnar frestað (og þegar ég tala um útilegu að vetri til meina ég þar sem gist er í skála). Í staðinn nýtti ég tækifærið til að vera heima að læra og snýta mér (áðurnefnd lesning nýttist ágætlega þar). Í gær fór ég í skóla og vinnu þar sem mér var vinsamlegast bent á að ég væri veik og ætti að vera heima hjá mér. Mér fannst ég nú ekkert veik, bara mjög kvefuð, sem er allt annar hlutur. Í dag er ég hinsvegar ennþá slatta kvefuð, er með hausverk og er óglatt. Ég hafi það af í skólann en ákvað að vera heima að snýta mér, hósta og hugsa um hvort ég þurfi að æla (ég hef ekki fengið ælupest í allavegana 10 ár svo ég efast um að ég sé að fara að taka upp á svoleiðis óskunda á gamals aldri) frekar en að fara í vinnuna. Kannski ég prufi húsráðið hennar Guðrúnar sem er að borða tvö hvítlauksrif á dag. Hún er mikill sérfræðingur í kvefi svo hún ætti að vita hvað hún er að tala um. 

 Nanna kvefpest


Bíóferð dauðans

Varúð. Hér að neðan verður mjög lauslega fjallað um söguþráð myndarinnar Cloverfield.  

Ég verð sjóveik af að horfa á Dogma myndir. Þær eru þó yfirleitt bara um reykjandi dani og sifjaspell og eitthvað rólegt (held ég, vegna fyrrnefnds kvilla horfi ég ekki mikið á Dogmamyndir).  Síðasta bíóferð mín varð því ekki mjög ánægjuleg.

Ég féllst á að fara með nokkrum vinum í bíó þrátt fyrir að ég væri ekki spennt fyrir myndinni. Þegar ég heyrði útvarpsauglýsingu um hana minnkaði áhuginn ennþá. Þegar ég svo sá auglýsingarplagatið fyrir hana var ég næstum hætt við. Það er bara mín reynsla að myndir sem eru með lemstraða Frelsisstyttu á plagatinu eru ekki góðar (eða höfða ekki að mínum smekk). Ég lét samt til leiðast.

Myndin var svosem ágæt, mjög dæmigerður söguþráður í stórslysa/skrímslamynd. Gallinn var hinsvegar myndatakan. Öll myndin var tekin upp á myndavél af fólki á hlaupum. Stundum var það í lagi, svona þegar söguhetjan með myndadavélina var kyrr og það var ekki mikill hasar í kringum hana. Það gerðist ekki oft. Ég endaði á að vera með lokuð augun eða að horfa ofan í kjöltuna á mér svona þriðjunginn af tímanum. Mig svimaði og varð hálf óglatt. Ég var næstum búin að labba út í hléinu. Held ég rúlli Dogmamyndum upp eftir þessa reynslu.

 

 Nanna aumingi


Nýjasta tíska

Bróðir minn kom á framfæri kvörtunum við mömmu yfir því að hún væri ekki byrjuð að prjóna á barnabarnið sem er á leiðinni. Mamma brást skjótt við og dróg fram prjónablöð sín og fann uppskrift að hosum. Ég fletti í gegnum blöðin með mömmu og veltist um af hlátri á meðan ( reyndar ekki alveg en það hljómar bara svo vel). Blöðin eru semsagt frá árunum 1985 til 1991. Í þeim voru forljótar peysur í stórum stíl, ein var meira að segja með fjöðrum. Barnafötin eru þó nokkuð tímalaus svo það sleppur. Núna skil ég afhverju mamma merkti tímarita boxið með þessum blöðum "tískublöð".

 

Annars er ég að lesa grein fyrir morgundaginn sem heitir "On blowings one´s nose"

 

Nanna snyrtimenni. 


Ha?

Ég er ekki heima hjá mér á matmálstíma (og missi þar með af fréttum) tvö kvöld í röð og það gerist bara allt á þeim tíma. Ég skildi ekkert hvað var verið að tala um nýjan meirihluta í útvarpinu í morgun. Skildi heldur ekkert í því hvað bloggarar voru að hlæja að því að 2 borgarstjórar í röð væru læknar... var Villi Vill læknir? Eftir smá rúnt á mbl fór ég að skilja.

Ég missti semsagt af fréttum um nýja borgarstjórn og útför Bobby Fisher... ætli það hafi eitthvað fleira farið framhjá mér... ætli Britney sé búin að gifta sig og kannski skilin líka.  

 

Nanna, úr tengslum við umheiminn 


Akademískt samfélag

Ég er farin að finna nokkra pressu að fara að drekka kaffi. Það virðist bara fylgja þegar maður er í háskóla. Get kannski reddað þessu með að labba um gáfuleg á svip með pappamál með kakói, kannski tei.

 Það er ekki tekið út eð syngjandi sældinni að vera í háskóla.

 

Nanna námsmær 


Ný önn

Þá fer ískaldur raunveruleikinn að byrja aftur eftir langt jólafrí. Sem er mjög gott, ég hef ekki þolinmæði í að gera ekki neitt heilu dagana. Ég er að fara í þrjá áfanga og sýnist á öllu að það verði nóg að gera hjá mér. Síðasta kennsluáætlunin kom í hús í gær, hún var 16 bls. og það var bara fyrir fyrri hluta námskeiðsins. Ég vissi ekki alveg hvort ég ætti að hlægja eða gráta. En áfangi sem heitir Lúsakambar, hlandkoppar og kynlíf: Þjóðhættir og daglegt líf í sveitasamfélaginu getur nú varla verið leiðinlegur þó maður þurfi að lesa mikið.

Bleikur virðist vera þemalitur þessarar annar. Lesheftin fyrir norrænu goðafræðina eru skær bleik og bókin sem ég keypti fyrir efnismenninguna er líka bleik. Hún er nánar tiltekið lítil og bleik og fjallar um líf millistéttar svía á fyrri hluta síðustu aldar. Ég held að hún verði áhugaverð lesning. 

 

Nanna námshestur 


Annáll ársins 2007..

.... pínu seint. Var búin að reyna einu sinni að skrifa annál en kerfið leyfði mér það ekki. Svo þurfti ég nokkra daga til að manna mig upp í að nenna að skrifa þetta aftur en hér kemur það.

Fyrstu mánuðirnir einkendust af gríðarlega miklu veseni við að koma Hroka og Hleypidómum á fjalirnar. Það þurfti að redda auglýsingum í leikskrána, redda proppsi, díla við skólastjórnendur, leikstjóra og leikhúseigendur og mæta á margar langar æfingar án þess að hafa í rauninni nokkuð að gera þar. 7. mars var verkið svo frumsýnt og fékk mjög góða dóma og þegar það vesen var búið gat maður andað léttar og farið að læra heima. Þrátt fyrir annríkið náði ég nú samt að fara í nokkrar ágætis útilegur, fara á síðustu árshátíðina í Kvennó og losna við teinana.          

Næst tók við dimmitering, vinna og útskrift. Stuttu eftir útskriftina varð ég svo tvítug og fór í tilefni af því með Jakob í menningar- og bernskuslóða sýnisferð til Akureyrar sem var mjög gaman. Svo tók vinnan við. Hún fólst í því að hafa ofan af fyrir mis vel (eða illa) uppöldum börnum og mjög mis vinnufúsum vinnuskóla krökkum. Það var gaman á köflum en reyndi jafnframt verulega á þolinmæðina. Vegna fyrirhugaðra framkvæmda á skála skátafélagsins varði barnapössunin þó frekar stutt. Skátinn var þó ekki lengi í paradís (Gilwell Park kannski) því óprúttnir aðilar brutust inn í skálan og stálu öllu steini léttara, þar með talið helling af verkfærum og Prins Póló. En þá gafst bara meiri tími til að undirbúa Jamboree.... og fara á McDonalds og tana. 

Í lok júlí var svo loksins komið að Jamboree (Alheimsmót skáta). Það var ótrúleg upplifun og maður kynntist allra þjóðakvikindum auk þess sem það var endanlega sannað að breskur matur er ekki góður og yfirgnæfandi fjöldi breta er óheppin með andlit.  

Eftir jamboree tók Háskólinn við. Ég byrjaði í þjóðfræði sem reyndist bara mjög skemmtilegt fyrir svo utan hressu samnemendurnar og kennarana (sem eru nota bene allt konur (nemendurnir)). Námið kallaði svo á fjölda verkefna, fyrirlestra og ritgerða auk skýrslugerðar og gífurlega mikils lesturs. En þar sem það er ekki nóg fór ég líka að vinna hjá skátunum sem kallar á dagsferðir, útilegur, fundarsetur og símtöl frá foreldrum og fleirum. Samt tókst mér nú að mæta í fullt af partýum, fara í áttræðisafmæli hjá ömmu og skreppa í sumarbústað með Sylvíu. 

Það gerðist því ýmislegt á þessu ári og ég lærði mjög margt nýtt. Td. að því minni samskipti sem maður hefur við leikstjóra því betra, að eg er nokkuð liðtæk með kúbein, að arabar eru vænstu grey sem horfa á Family guy, gefa mexíkóskum stúlkum g-strengi og kunna ekki arabastökk (við bættum reyndar úr því). Ég komst líka að því að það er mjög hættulegt að ryðjast í röð sem eru nánast bara bretar í og er bara fegin að hafa sloppið frá því án líkamsmeiðinga (sakleysislegt bros og léleg tilraun til að halda því fram að ég talaði ekki ensku gerðu lítið gagn). Að síðustu komst ég svo að því að Geir H. Haarde er helvíti hress en það breytir því samt ekki að ég á seint eftir að kjósa hann.

Ég ætlaði að prýða annálin myndum (flestum stolnum) en það var ekki alveg að virka. Ég ætlaði líka að setja inn framtíðarsýn fyrir árið 2008 en þetta er bara orðið full langt svo það fær að býða betri tíma.      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hógvær bæði og yndisleg

Höfundur

Nanna Guðmundsdóttir
Nanna Guðmundsdóttir
Litla systir, stóra frænka, dóttir, vinkona, þjóðfræðinemi, ofurskáti og metnaðarfullur en húðlatur bloggari.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...ng_hood_726
  • jólamynd
  • jólamynd
  • Hvernig rúsínur verða til
  • Hvernig rúsínur verða til

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband