Færsluflokkur: Bloggar

Hvít jól

Þá er prófastússið búið og tvær einkunnir komnar í hús og það 8.5 og 9. Mjög sátt með það. Jólin voru svo bara mjög róleg og fín. Var í góðu yfirlæti hjá Þórhildi og co. bæði á aðfangadag og jóladag þar sem gamla settið flúði land. Það var svolítið öðruvísi að vera ekki litla barnið og sjá hvernig krakkar eru í þessu pakkaflóði. Ég fór líka í kirkju klukkan 6 sem var ágætt en ekkert sem ég ætla að leggja í vana minn.

Jólagjafauppskeran var mjög góð. Bækur, náttföt, inniskór, baðvörur og fleira. Ég hef því eitthvað að lesa í jólafríinu sem er nýmæli því ég hef voða sjaldan fengið bækur í jólagjöf í seinni tíð. Ég fékk líka matreiðslubók sem ég ætla strax að byrja að nota. Það er uppskrift að bananamuffins í henni og ég á einmitt banana sem liggja fyrir dauðanum.

 

En bækurnar og konfektið bíða.

 Nanna jólabarn 


Nýtt áhugamál

Það er orðið sérlegt áhugamál hjá mér að skoða blogg um eldfim málefni (trúleysingja og feminisma) og þær rosalegu umræður sem spinnast í athugasemdakerfinu. Það er ótrúlegt hvað fólk nennir að rífast við fólk sem það þekkir ekki neitt (geri ég allavegana ráð fyrir) þegar það virðist vera borin von að það verði nokkurn tíman sammála. Þetta er fín afþreying meðfram lærdóminum. Fyndið hvaða vitleysa og oft rökleysa getur oltið upp úr fólki. Það hlýtur að vera erfitt að hafa svo gífurlega sterkar skoðanir á hlutunum að maður bara verður að benda fólki á að það sé á villigötum og reyna að láta það sjá ljósið (hvað sem það nú er) eða í það minsta gera því ljóst að það sé fífl og hálfviti að vera þesara skoðunar. Það er gott að fólk hefur nóg að gera.

Annars er ég búin með fyrra prófið og get ekki beðið eftir því þegar þetta prófa stand verður búið.

 

Nanna, áhugamanneskja um nöldur.


Endurvakning og samfella

Það er hálf glatað að vera að læra fyrir próf þegar enginn þarna úti nennir að blogga og maður er nýbúin að komast að því að bubbles sé ekki skemmtilegur leikur (af því ég tapa alltaf..). Þá er bara ekkert annað að gera en að læra. Ég er ekki ennþá komin á það stig í próflestrinum að fara að taka skápa í gegn og þrífa glugga. Ég ætla meira að segja að reyna að sleppa því stigi þó að herbergið mitt hefði gott af smá tiltektarbrjálæði.

Ég verð semsagt mjög fegin þegar þessi próf (öll 2) eru búin. Þá tekur við jólafrí sem nær kjánalega langt fram í janúar. Jólafrí frá 18. des til 14. jan er bara ekki praktískt upp á vinnu. Ég er ekki alveg búin að ákveða hvort ég eigi að reyna að finna mér einhverja smá vinnu í þessu fríi. Ég nenni því varla en vinnualkanum og aurapúkanum í mér finnst agalegt að sitja heima og bora í nefið í 3 vikur. Þetta er aðallega spurning um hvar ég vil vinna. Í seinni tíð er ég líka orðin svo góðu vön. Þarf ekkert að hafa fyrir því að sækja um vinnu það er bara hringt í mig og mér boðin vinna. Verð kannski bara að bíða eftir að það gerist....

 

Nanna, latur vinnualki

 Ps. Endurvakning og samfella eru hugtök í þjóðfræði, ekki nærfatnaður


Ted Bundy og íslendingar

Raðmorðingjar eru gjarnan siðblindir. Þeir vita hverjar reglur samfélagsins eru en finnst samt að þeir séu yfir þær hafnar. Það er mesta furða að raðmorðingjar þekkjast ekki á Íslandi því þetta viðhorf virðist vera landlægt hér á landi. Fólk keyrir reglulega í gegnum slysstaði af því að því liggur svo á. Það veit örugglega að það má ekki en finnst það bara eiga við um ómerkilega fólkið.

Svo var verið að taka 17 ára strák á rúmlega 200 km hraða. Hann hefur vafalítið vitað að það mætti ekki og vonandi vitað að það væri hættulegt og að hann væri á góðri leið með að steindrepa sig og farþegann og þá saklausu vegfarendur sem hefðu getað orðið á vegi hans. Það skipti samt engu máli. Hann er nefnilega góður bílstjóri og það eru bara kellingar og aumingjar sem kunna ekki að keyra sem þurfa að fara eftir reglum um hámarkshraða.

Siðblindingjarnir okkar ná sennilega ekki að verða raðmorðingjar. Þeir drepa sig í umferðinni áður.  

 

Nanna, sem ætti að vera að læra fyrir próf en er að svíkjast undan 


Próflestur

Þá er ég búin að koma frá mér útvarpsþættinum og bara eftir prófin tvö. Það var svolítið skrítið að vera daglegur gestur upp í útvarpshúsi í þrjá daga í röð. Ég var alveg hættur að kippa sér upp við allt fræga fólkið sem var á röltinu og var bara niðursokkin í mitt. Svo er bara málið að hlusta á rás 1 í janúar og febrúar, jafnvel mars. Annars læt ég ykkur nú vita þegar ég veit hvenær þetta fer í loftið svo þið getið hlutstað á mig fara á kostum og fræðst um Freyvangsleikhúsið í leiðinni og þurfið ekki að sitja límd við útvarpið alla daga.

 Ég hef ekkert skilið í því afhverju það er alltaf verið að spila jólalög í útvarpinu, fattaði það í dag þegar fór að snjóa þessum ekta jólasnjó. Hef verið of upptekin síðustu daga til að komast í jólaskap... en það stendur vonandi til bóta.

 

jólamynd

 

 

 

 

 

 

Nanna dagskrárgerðarkona 


Erfðir og umhverfi

Mér fannst það svolítið skondið þegar ég uppgötvaði að systir mín er með sama bakgrunn á sínu bloggi og ég. Auk þess eigum við eins pennaveski. Líka algjör tilviljun. Foreldrar okkar hafa greinilega svona afgerandi smekk (góðan að sjálfsögðu) að við systurnar, þrátt fyrir 13 ára aldursmun og mjög ólíkar uppeldisaðstæður, veljum mjög svipaða hluti til að hafa í kringum okkur.  Spurning hvað uppeldisfræðingar hefðu um þetta að segja.

 

 
Hvernig rúsínur verða til

 

 

Nanna smekkmanneskja


Fjölmiðlar

Í dag er ég búin að hnjóta um tvo hluti í fjölmiðlaflórunni sem vöktu sterk viðbrögð hjá mér. Sverrir Jakobsson skrifaði mjög góða grein sem birtist í Fréttablaðinu (má tala um fréttablaðið á moggabloggi...) núna á laugardaginn. Þar svarar hann þeirri gagnrýni sem hefur komið fram upp á síðkastið um jafnréttismál. Mæli með því að fólk kíki á hana. Hún gerði greinina hans Þorsteins J. ,,Kerlingavæl", sem birtist á næstu opnu í sama blaði, mjög hjákátlega. Þar tuðar Þorsteinn J. um að það sé ekki fallegt hjá kellingum (reyndar ekki hans orð en hefði passað vel við tóninn í greininni) að leggja Egil Helgason í einelti og að það sé bara mjög eðlilegt hvað það er lítið af konum í fjölmiðlum. Hann er kannski bara hræddur við breytingar eins og Sverrir orðar það. 

Í dag horfði ég svo á hið fræga Silfur Egils. Ég legg það nú ekki í vana minn af þeirri einföldu ástæðu að það litla sem ég hef séð af þeim þætti fannst mér bara vera karlavæl. Ómálefnalegt með öllu og leiðinlegt. Í þættinum í dag var verið að leiðrétta að trúleysingjar væru ekki vont fólk sem vildu ekki halda upp á jól og páska auk þess sem rætt var um hvort rétt væri að lögð væri áhersla á kristileg gildi í grunnskólum. Jón Magnússon sagði að íslendingar væru svo kristnir að auðvitað ætti að kenna börnum kristin gildi sem væru auk þess miklu betri en það sem önnur trúarbrögð boða. Sem er hvort tveggja rangt. Þarna var hann að miða við Íslam og hryðjuverkamenn og heimfærði það upp á öll önnur trúarbrögð. Það hefur nefnilega aldrei neinn verið drepinn í nafni kristninnar. Annars er ég nokkuð viss um að öll trúarbrögð boða tillitsemi, virðingu og náungakærleik og ekkert að því að kenna börnum það en ekki í nafni trúarinnar. 

Þessi umræða var semsagt eins og oft vill verða þegar tveir deila. Annar er málefnalegur og kemur með góð rök fyrir máli sínu en hinn er svo viss um að hann hafi rétt fyrir sér að hann segir bara tóma þvælu. 

 

Nanna, femíniskur trúleysingi 

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hógvær bæði og yndisleg

Höfundur

Nanna Guðmundsdóttir
Nanna Guðmundsdóttir
Litla systir, stóra frænka, dóttir, vinkona, þjóðfræðinemi, ofurskáti og metnaðarfullur en húðlatur bloggari.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...ng_hood_726
  • jólamynd
  • jólamynd
  • Hvernig rúsínur verða til
  • Hvernig rúsínur verða til

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband