Færsluflokkur: Bloggar

Hella- og gönguferð

Hafið þið séð The Decent? 

 Ég hef séð hana og leið því ekkert rosalega vel síðasta mánudag þegar ég klöngraðist inn í Leiðarendahelli í Bláfjöllum síðasta mánudag með svefnpoka og dýnu (en enga ísexi). Grillaður banani með Snickersi og lestur í þeirri eðal bók Lísa verður skáti róaði hinsvegar taugarnar og mig dreymdi ekki að það væru ljótar hvítar verur að éta mig. 

Daginn eftir tók svo við 20 km labb í ca 10 gráðu frosti, blanka logni og sól... semsagt frábært gönguveður. Það varð hinsvegar ansi kalt þegar við stoppuðum til að borða hádegismat og grillaði laxinn var ansi fljótur að kólna (og salatið var frosið). 

 Mikið rosalega var gott að koma heim og fá heitann kvöldmat og sofa í hlýju, mjúku rúmi.

 

Nanna göngugarpur 


Af hnetusmjöri og öðrum viðbóð

Þegar ég var að sleikja restarnar innan úr hnetusmjörskrukkunni fór ég að hugsa til þess tíma þegar mér fannst hnetusmjör viðbjóður sem væri bara hægt að éta ef maður hefði nógu mikla sultu með til að eyða bragðinu. Það hafði semsagt eitthvað gerst sem breytti þessari skoðunn minni til muna. Ég fór líka að hugsa til annars fyrrverandi viðbjóðar. Ég er til dæmis farin að geta drukkið kaffi án þess að gretta mig og það er ekki laust við að mér finnist það gott. Ennþá læt ég það þó vera að fylgja straumnum inn á kaffistofu í frímínútum í skólanum en það gæti breyst einn daginn. Ég lærði líka að borða túnfisk sem áður var í viðbjóðs flokknum, eftir að hafa búið til túnfisksalat klukkan 7 á morgnana heilt sumar. 

 Núna er bara spurning hvort bjór og paprika eigi eftir að hljóta náð fyrir bragðlaukum mínum í framtíðinni.

 

 


Skólinn í sjónmáli

Hið óendanlega langa jólafrí er alveg að taka enda, skólinn byrjar semsagt á morgun. Ég verð mjög fegin að hafa aftur eitthvað að gera þó mér sýnist á kennsluáætlunum að fljótlega fari ég að bölva því að hafa of mikið að gera.

Ég er svo spennt að hafa eitthvað að gera og geta farið að skrifa hluti niður í dagbók að ég er að fara að gera mér sér ferð út í skóla til að ná mér í dagbók. Skipulagsfríkinu í mér er búið að líða illa síðan um áramót þegar gamla dagbókin mín kláraðist og ég hætti að geta skrifað hluti skipulega niður. Þetta árið er ég samt að spá í að fara raunverulega eftir öllu þessu sem ég skrifa niður. Það væri allavegana plús.


2009

Árið 2008 leið alveg skuggalega hratt, mér finnst allavegana mjög stutt síðan síðustu jól voru. Ég var að spá í að gera mánaðarskiptann annál en gerðist svo löt og ákvað að nenna því ekki. Það eru líka margir mánuðir sem voru voða viðburðarlitlir. En þetta er svona það helsta sem gerðist:

  • Ég flutti að heiman og er komin á stúdentagarðana
  • Ég eignaðist yndislega litla frænku og fór til Finnlands að skoða hana svona um það leiti sem krónan byrjaði að hrynja
  • Ég fór á ættarmót í Freyvangi og hitti fólk sem ég hafði ekki séð heillengi
  • Bjarni vinur minn dó
  • Ég fór á landsmót skáta
  • Ég fór til Danmerkur á skátaráðstefnu um það leiti sem krónan var að komast á botninn
  • Ég fór í Laufskálarétt, til Hólmavíkur og út í Gróttu með skemmtilegum þjóðfræðinemum

Ég gerði margt margt fleira en þetta stendur svona upp úr. Þetta var mjög mis skemmtilegt/leiðinlegt en í heildina var þetta ágætis ár.

Ég ætla ekkert að vera að giska á hvernig árið 2009 verður, það kemur bara í ljós. Það sem er þó á dagskránni er að klára þjóðfræðina og byrja í fjölmiðlafræði og byrja á ba ritgerðinni minni. Ég er líka ákveðin í því að gera eitthvað skemmtilegt í sumar, hvort sem það verður skemmtileg vinna eða ferðalög. Mér finnst það gott plan á tímum atvinnuleysis og gjaldeyrishafta.

 

 


Jólafrí

Þá er ég komin í jólafrí sem er mjög mjög gott fyrir utan það að ég er farin að snúa sólarhringnum við sem er ekki eins gaman. Það er samt nóg að gera við að hitta fólk í eða uppúr hádegi svo ég verð reglulega að vakna "snemma". Til að mynda er ég að fara í annað skiptið í vikunni upp í Mosfellsbæ klukkan 10 um morgun, maður leggur ýmislegt á sig til að hitta skemmtilegt fólk.

Núna er ég hinsvegar að hlusta á gamlar auglýsingar frá FM Óðal sem er ákaflega súrt. Ég mæli hiklaust með að þeir sem hafa hugmynd um hvað FM Óðal er kíki á síðuna hjá þjóðfræðinemanum og Borgnesingnum Eggert og hlusti á upptökurnar.

 

 Nanna nátthrafn


Hrakfarir

Sigrún vinkona átti afmæli 1. des. Í tilefni af því ákváðum við Guðrún að kíkja í kaffi til hennar. Við stukkum því upp í súkkuna og héldum af stað sem leið lág upp í Grafarvog. Í ártúnsbrekkunni fór bílinn hinsvegar að vera með læti og í mælaborðið kom ljós sem sagði mér að skoða vélina. Ég fór út í kannt og hringdi í Jakob sem sagði mér að tékka á olíunni. Við Guðrún opnuðum húddið (sem var bara heppni að ég kunni) og fórum að leita að olíunni. Eftir smá leit urðum við að játa okkur sigraðar, okkur til mikillar skammar og ég var að fara að hringja aftur í Jakob þegar indæll maður sá aumur á okkur og stoppaði og bauðst til að hjálpa. Ég tek það fram að eini maðurinn sem var til í að hjálpa bjargarlausum ungum stúlkum (ég var meira að segja í pilsi til að toppa allt) í skítakulda var útlendingur, hvað segir það um Íslendinga. Hann tilkynnti okkur það að engin olía væri á bílnum og skutlaði mér til að kaupa olíu sem gerði svo ekkert gagn, bílinn fór ekki í gang. Við urðum því bara að skilja bílinn eftir og redda okkur fari til Sigrúnar.

 Þegar Jakob var svo búin að fá vin sinn til að hjálpa sér að draga bílinn heim var löggan búin að láta draga hann í burtu svona til að toppa vesenið. Jakob var farinn að kanna hvar hann gæti selt skrjóðinn í brotajárn og við vorum búin að læra hvernig ætti að taka strætó út í búð þegar það kom í ljós að súkkan hafði ekki brætt úr sér eins og við héldum heldur er einhver skynjari eitthvað bilaður. En hún lifir semsagt, allavegana í bili.

 

Nanna, næstum því bílamorðingi


Óskalisti

Ég lifði það af að skila 2 ritgerðum, fara í próf og flytja fyrirlestur allt á 2 dögum. Núna tekur bara við próflestur fyrir eitt próf í viðbót og skrif á þriðju ritgerðinni. Það er samt ekki í neinu stressi.

 En svona afþví að ég ætti að vera að læra núna en nenni því ekki og ég veit að þarna úti er fullt af fólki sem langar ekkert frekar en að gefa mér jólagjöf ákvað ég að skella saman smá óskalista. Listin er alveg nokkurnveginn í takt við kreppuna, enda hef ég frekar ódýran smekk.

 

Eldhús áhöld:

Mortel 

Vöfflujárn

Handþeytara

Hraðsuðuketil

Pottaleppar

Allskonar minni áhöld, skal bara telja upp það sem ég á, það er fljótlegra (kökukefli, steikarspaða, sleif, mæliskeiðar, hnífar) við eigum alveg fleiri áhöld en þau eru öll drasl úr IKEA

 

Afþreyingar efni:

Silfursafnið með Páli Óskari

Allt fyrir ástina með Páli Óskari

Diskinn með 200.000 Naglbítum og Lúðrasveit Verkalýðsins  

Sería 4 og uppúr af Bráðavaktinni (ER)

Grænmetisréttabók Hagkaups

Meistari ævintýrsins (Ævisaga Björgvins Magnússonar)

Sú þrá að þekkja og nema (Bókin um Jónas frá Hrafnagili) 

Þjóðsögur við þjóðveginn

Saga daganna

Merkisdagar á mannsævinni

Íslenskar kynjaskepnur 

 Jóladiskar, ekki jólapopp samt, eitthvað nær bing cosby og Hauki Mortens

 

Annað: 

Fallegt jólaskraut 

Eyrnalokkar

Húfa, vettlingar, trefill

Hlýtt sjal

Sokkar, venjulega eða ullar

Húðkrem (e. body lotion)

Stór, vatnsheld (að mestu allavegana) taska/veski, helst sem rúmar A4 stílabók 

 

Það ætti semsagt að vera frekar auðvelt að kaupa jólagjöf handa mér í ár.

 

 


Ritgerðir og aftur ritgerðir

Hólmavíkur ferðin var mjög skemmtileg en bærinn var mun minni en mig minnti. Ég komst líka að því að mannfræðingar er allt annar kynstofn en þjóðfræðingar en það má samt alveg hlæja að þeim.

Það er farið að renna upp fyrir mér að eftir viku á ég að skila samtals 25 blaðsíðum, hið minsta, (það eru 2 ritgerðir) ég er búin með sirka 13 blaðsíður svo það er smá vinna eftir.

 Ég er samt eiginlega meira að hugsa um hvað ég eigi að gera í 6 vikna langa jólafríinu mínu. Það er reyndar bara 5 vikur núna þar sem skilum á þriðju ritgerðinni var frestað til 10. des (í staðin fyrir jólafrí 4. des) sem er eiginlega bara eins gott. Ég ætla allavegana að þrífa helling og baka... ég segi það núna, svo er spurning hvað verður.

 

Nanna námshestur 


Réttast væri að senda þær rakleytt til Hólmavíkur

Þá er kominn föstudagur, enn og aftur, þessi tími líður alveg svakalega hratt. Eftir 2 vikur þarf ég að vera búin með 2 ritgerðir, búin að klára safnaskýrslu og kynna hana, taka 2 viðtöl og skrifa þau upp og eitthvað fleira. En einhvern veginn nær maður nú alltaf að klára þetta allt. Ég er meira að segja svo róleg yfir þessu að í dag er ég búin að baka bæði bollur og bananabrauð og ætla að skella mér til Hólmavíkur á morgun.

Á Hólmavík er ég að fara á svakalega gáfulegt húmorsþing sem þjóðfræðistofa heldur. Þar verða haldnir fyrirlestrar eins og "er húmörinn eins og blóðmörinn, bestur súr", "smælað framan í smælingjana" og fullt í viðbót. Síðan ég ákvað að skella mér hefur ómað í hausnum á mér brot úr sketch sem spaugstofan gerði fyrir löngu síðan um hagyrðinga sem voru að gera grín að embættismanni sem var sendur til Hólmavíkur sem refsing fyrir einhver afglöp í starfi. Ég man ekki fyrripartinn á vísunni bara orðið sem rímar við Hólmavíkur og seinnipartinn. 

 Bla bla bla bla bla bla bla

bla feministapíkur. 

Réttast væri að senda þær

rakleytt til Hólmavíkur 

 

Það er gaman að þessu.

 

Nanna 


Vinnan mín

Þegar ég mætti í vinnuna í dag biðu mín skilaboð sem voru svo hljóðandi: Það er eitthvað dáið inn á Gróttu, finnið og grafið!

Ég gekk í það verkefni en vissi ekki alveg hvar ég ætti að byrja. Á endanum fann ég þó uppruna vondu lyktarinnar. Hún kom frá eggi í kassa undan ljósaperu sem var fylltur upp með svampi. Það voru fleiri egg upp í hillu í undarlegum umbúðum og sennilega öll farin að stinka líka. Ein strákasveitin var semsagt að gera verkefni sem heitir geimegg og gengur út á að pakka eggi vel inn og skjóta því upp í "geim" án þess að það brotni. Því verkefni hefur verið aflýst af heilbrigðisástæðum.

Nanna heilbrigðisfulltrúi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hógvær bæði og yndisleg

Höfundur

Nanna Guðmundsdóttir
Nanna Guðmundsdóttir
Litla systir, stóra frænka, dóttir, vinkona, þjóðfræðinemi, ofurskáti og metnaðarfullur en húðlatur bloggari.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...ng_hood_726
  • jólamynd
  • jólamynd
  • Hvernig rúsínur verða til
  • Hvernig rúsínur verða til

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband